Um okkur
Fyrirtækið
Viðskiptavinir
Við erum stolt af því að vinna með öllum helstu auglýsingastofum og fyrirtækjum landsins. Sjónvarpsþættir okkar eru sýndir á öllum stóru sjónvarpstöðum landsins.
Okkar markmið:
Vera skapandi og hafa áhrif
Verðlaun
Verðlaun eru laun fyrir unnin afrek. Þau eru nokkur hér á bæ og við erum stolt af þeim.
Lúðurinn
19 Verðlaun - Yfir 50 tilnefningar
Eddan
3 Verðlaun - 11 Tilnefningar
Effie
3 Verðlaun
Cannes Lion
1 Tilnefning
Teymið
Teymið okkar, Skotarnir, er þaulreynt fólk úr bransanum sem lifir í lausnum, fagmenn fram í fingurgóma, frábært lið.

Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir
framleiðandi | addu@skot.isArnþrúður Dögg Sigurðardóttir er alltaf kölluð Addú. Þegar amma hennar spurði hana hvað hana langaði að verða þegar hún yrði stór þá var svarið eiturslanga. Ferill Addúar er fjölbreyttur og hún hefur komið víða við, allt frá því að dæla bensíni á bíla í að vera áhættuleikari og viðburðastjóri. Hún hefur þó aðallega starfað við gerð auglýsinga, sjónvarpsþátta og kvikmynda síðustu 18 árin. Addú er frekar létt og hress að eðlisfari, reynir að forðast leiðindapúka og þess vegna er hún að vinna hjá Skoti. Frið, ró og fjör finnur hún á Vestfjörðum þar sem hún gerir upp fallega hluti og er með alls konar á prjónunum.

Eiður Birgisson
framleiðandi | eidur@skot.isEiður Birgisson er búinn að vera í bransanum í hartnær aldarfjórðung og hefur marga fjöruna sopið. Hann er vinsæll maður, jafnt í leik og starfi, rekst vel í hópi og hefur enn ekki sést í fýlu. Sérsvið Eiðs eru orðin all nokkur en upphafið má rekja í staðaleitir (e. location scout). Í því fór Eiður mikinn og gerði vel. Síðan hefur hann framleitt ógrynni af sjónvarpsefni og kvikmyndum, s.s. Verbúðina, Áramótaskaup, Ófærð, Eiðurinn, Stella Blómkvist 2, Vargur, Skjálfta og fleira og er að auki kominn með margra ára reynslu af framleiðslu auglýsinga. Eiður lætur ekki þar við sitja heldur hefur líka slatta af leikstjórnarverkefnum á ferilskránni sinni, ekki síst í tónlistarmyndböndum, en nýjasta nýtt er æsileg sjónvarpsþáttaröð um jaðarsport, Alex from Iceland, sem hlaut tilnefningu til Edduverðlaunanna núna í vor. Eiður rak líka 800 bar. Ekki 800 bari.

Gunnar Páll Ólafsson
eigandi, leikstjóri, yfirframleiðandi | gunnar@skot.isGunnar Páll Ólafsson er annar helmingur hins afkastamikla og margverðlaunaða leikstjórateymis Samuel&Gunnar og er jafnframt einn eigenda Skots. Gunnar er rólegheitamaður og drengur góður, gefinn fyrir góðar sögur, gleði og gott vín. Samúel segir Gunnar ekki vera stundvísasta manninn í bransanum en hitt sé annað mál að enginn í heiminum hafi næmara auga og eyra fyrir tímasetningum. Leiðir Gunnars og Samúels hafa legið saman í aldarfjórðung og að sögn Gunnars eru þeir rétt að byrja.

Hlynur Sigurðsson
eigandi, yfirframleiðandi | hlynur@skot.isHlynur Sigurðsson er gaflari og gráhærðasti maðurinn í Skoti. Hann er maður framkvæmda og þess vegna er hann framkvæmdastjóri Skots auk þess að vera einn eigenda þess. Hann hefur verið viðloðandi sjónvarp frá aldamótum og ekkert á skjánum er honum óviðkomandi, auk þess sem hann var frumkvöðull mikill í netsjónvarpi í árdaga þess. Að auki er hann menntaður mjög, með MBA gráðu frá Copenhagen Business School og heldur fast um veski Skots. Hefur það margoft komið félaginu vel. Hann er góður í golfi og drekkur alltaf bjór þegar hann er í boði.

Inga Lind Karlsdóttir
eigandi, yfirframleiðandi | ingalind@skot.isInga Lind Karlsdóttir heitir í alvörunni Ingibjörg en næstum enginn veit það og það skiptir heldur engu máli. Hún hefur starfað við fjölmiðla allt sitt líf, lengst af í sjónvarpi sem fréttamaður, þáttastjórnandi og kynnir. Inga Lind hefur verið með puttana í heimildamyndavinnu, ýmis konar þáttagerð, viðtalsþáttum, matarþáttum, raunveruleikaþáttum, heimilisþáttum og þáttaþáttum enda ku henni ekkert vera óviðkomandi.

Kristín Andrea Þórðardóttir
yfirframleiðandi, framleiðandi | kristinandrea@skot.isKristín Andrea Þórðardóttir er framleiðandi og hefur verið á bólakafi kvikmyndabransanum í á annan áratug, vinnandi við all nokkrar dúndurgóðar kvikmyndir. Okkar hlutlausa mat á Kristínu Andreu er að hún geti allt. Hún bjó í Danmörku í upphafi aldarinnar, lærði alþjóðaviðskipti og tók svo master í markaðsfræðum, samskiptum og stjórnun. Akkúrat núna er hún sokkin ofan í þróun á heimildaverkefnum en þegar hún kemur upp til að anda, fer hún helst alla leið upp á eitthvað fjall. Kristín Andrea er líka annar höfuðpaur Skjaldborgar, hátíðar íslenskra heimildamynda. Hún leikstýrði og framleiddi heimildamyndina Er ást sem hlaut bæði verðlaun og verðskuldað lof.

Samúel Bjarki Pétursson
eigandi, leikstjóri, yfirframleiðandi | samuel@skot.isSamúel Bjarki Pétursson er yngstur margra bræðra og faðir margra dætra, maður einnar konu. Líkt og áður segir er hann annar helmingur auglýsingaleikstjórateymisins Samuel&Gunnar sem og einn af eigendum Skots. Samúel er mikill maður vexti sem hugar vel að heilsunni en gleðimaður einnig. Þeir Gunnar hafa víða hafa ratað og leikstýrt nokkur hundruð auglýsingum á farsælum ferli og hlotið verðskuldað lof fyrir. Samúel vill gjarnan hafa gott skipulag á hlutunum og ferst það ævinlega vel úr hendi.