Baldvin Vernharðsson keypti fyrstu kvikmyndatökuvélina sína þegar hann var 12 ára svo hann gæti skotið hjóla- og snjóbrettamyndbönd.“Þess háttar myndir hafa átt mikinn þátt í að móta mig sem tökumann og skilið eftir hrátt landslag,” segir Baldvin sem fór beint í að vinna að myndinni Málmhaus eftir útskrift úr Kvikmyndaskólanum árið 2013 en þar áður hafði hann lokið listnámi í grafískri hönnun. Hann byrjaði sem sagt sem tökumaur, eins og hann orðar það sjálfur, og hefur nú mikla tæknilega þekkingu á kvikmyndatöku sem nýtist honum vel sem leikstjóra. Hann er fljótur að finna áhugaverðar lausnir og verið óhræddur við að prófa sig áfram með nýja tækni og miðla. Baldvin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2019 fyrir tónlistarmyndband ársins við lag Hatara “Hatrið mun sigra” og hlaut einnig Grapevine Music Awards árið 2020 fyrir besta myndbandið með lagi Bjarka “Ana5”. Þá kvikmyndaði hann A Song Called Hate sem fékk Edduverðlaunin árið 2021 fyrir heimildamynd ársins. Áhugamál Baldvins eru einkum og sér í lagi kvikmyndir, tónlist, visual arts og snjóbretti. Hann hefur náð að tvinna vel saman þessi áhugamál sín með því að vinna með tónlistarfólki að myndböndum jafnt sem sviðsframkomu sem og hönnun á sjónrænu efni á tónleikum.