Þura Stína er framleiðandi og leikstjóri með brjálæðislega mikinn áhuga á auglýsingum.
Bakgrunnur Þuru er marglaga en hún er með BA gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og mastersgráðu í listrænni stjórnun og markaðssamskiptum við listaháskólann NABA í Mílanó. Þura vann á auglýsingastofunni Brandenburg eftir útskrift og hefur komið að mörgum verkefnum og herferðum þar sem hún hefur unnið sem sjálfstætt starfandi listrænn stjórnandi. Hún er einnig framleiðandi hönnunarráðstefnunnar DesignTalks og hefur unnið síðastliðin tvö ár með Nova sem upplifunarhönnuður á ásýnd vörumerkisins. Líf hennar hefur alltaf snúist mikið um tónlist en hún hefur framleitt og leikstýrt fjöldanum öllum af tónlistarmyndböndum og fengið fyrir það tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna og unnið Besta myndband ársins á Hlustendaverðlaununum. Seinasta verkefni hennar var stuttmyndin EIN sem frumsýnd var á StockFish Film Festival núna í vor þar sem hún sýnir margþætta eiginleika sína þar sem hún skrifaði handritið, framleiddi, hannaði sviðsmyndina og leikstýrði myndinni. Sturluð staðreynd: Þura Stína er líka með skipstjórnarréttindi og er búin að sigla hálfan heiminn á seglskútu - en hún á hinn helminginn eftir. Að því undanskildu að sjá nýja staði og tækla nýjar áskoranir er aðaláhugamál hennar að vinna, henni finnst ekkert skemmtilegra en að vinna. Alveg satt.