Þóra Hilmarsdóttir hefur farið víða og býr nú bæði á Íslandi og í London. Hún lærði grunnnám í kvikmyndagerð við The European film Collage í Danmörku. Þaðan lá leið hennar til London í hinn virta listaháskóla Central St. Martins þar sem hún sameinaði áhuga sinn á list og kvikmyndagerð. Með námi og eftir útskrift starfaði Þóra hjá framleiðslufyrirtæki Ridley’s Scott RSAfilms sem Creative Researcher. Árið 2014 leikstýrði Þóra sinni fyrstu stuttmynd, Sub Rosa, sem hlaut Eddu tilnefningu og vann aðalverðlaun á San Diego Film Festival svo eitthvað sé nefnt. Seinni stuttmynd Þóru, Frelsun, ferðaðist enn víðar. Hróður Þóru eykst jafnt og þétt og hefur hún nú einnig leikstýrt sjónvarpsþáttum bæði hér á Íslandi og í Bretlandi. Nýjastir á því sviði eru þættirnir The Rising sem voru framleiddir af Sky og frumsýndir á Berlinale. Þóra hefur einnig leikstýrt fjölda tónlistarmyndbanda og auglýsinga og hlaut hún Lúðurinn árið 2020 fyrir auglýsingu fyrir Nova.